Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Hafa skilyrði fyrir búsetuleyfi breyst?

Já. Nú er meginreglan sú að það má veita útlendingi búsetuleyfi hafi hann dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis. Áður gátu t.d. þeir sem höfðu fengið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar sótt um búsetuleyfi eftir 3 ár.


Skilyrði fyrir veitingu búsetuleyfis eru m.a. að útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, að ekki liggi fyrir ástæður sem geta valdið því að honum verði vísað úr landi, hann sýni fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti séð fyrir sér hérlendis með löglegum hætti. Greiðslur almannatrygginga, atvinnuleysisbætur eða greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu, en það má víkja frá þessu skilyrði ef framfærsla hefur verið ótrygg í stuttan tíma og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Það er einnig skilyrði að útlendingur hafi haft dvalarleyfi á sama grundvelli (t.d. dvalar- og atvinnuleyfi) síðustu fjögur ár áður en umsókn um búsetuleyfi er lögð fram og skilyrði þess leyfis séu enn uppfyllt.

Umsækjandi um búsetuleyfi má ekki eiga ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi (afbrot).

Það má veita barni sem fæðist eftir að forsjárforeldri kemur til landsins búsetuleyfi ef foreldrið hefur búsetuleyfi hér á landi.

Þegar lögheimili útlendings hefur verið skráð erlendis í 18 mánuði fellur búsetuleyfið sjálfkrafa niður.

 

Forsíða Spurt og svarað Búsetu og atvinnuleyfi Hafa skilyrði fyrir búsetuleyfi breyst?