Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Húsaleigumál

Fjárhæð húsaleigu: Á flestum stöðum á Íslandi er nú mikill skortur á leiguhúsnæði. Eins og búast má við, hefur það haft þau áhrif að húsaleiga hefur hækkað verulega. Margir geta ekki greitt eins háa leigu og farið er fram á og er orðið nokkuð algengt að fólk leigi bara eitt herbergi, jafnvel með öðrum, í íbúð.

 Engu að síður er hver einstaklingur að borga 25-30 þúsund á mánuði ef ekki meira og þýðir það í mörgum tilvikum að eigandi húsnæðisins er að fá 2-300 þúsund kr. í leigu fyrir 3-4 herbergja íbúð. Er það álitamál hvort svo há leiga standist ákvæði húsaleigulaga en þar segir að leigufjárhæðin skuli vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila, þ.e. bæði leigusala og leigjanda. Það er þó erfitt fyrir leigjendur að gera nokkuð í málinu, flestir vilja ekki missa húsnæði sitt.

Annað sem má nefna er það, að á Íslandi er fjárhæð húsaleigu ekki stöðluð samkvæmt fermetrafjölda t.d. Til mín hafa leitað nokkrir einstaklingar sem telja sig vera að leigja minna húsnæði en samningurinn segir til um og að þeir eigi því að greiða lægri leigu. Í nýlegum úrskurði Kærunefndar húsaleigumála, kemur hins vegar skýrt fram að sýna verði fram á, að sé leigufjárhæð ákvörðuð miðað við fermetrafjölda húsnæðisins, eigi þá koma fram á leigusamningnum á hvaða stærð útreikningur leigunnar byggist. Ef það er ekki gert, þá þarf að sýna fram á að það með því að leggja til grundvallar þær forsendur og þá aðferð sem venjulegust er. Ef ekki tekst þá að sýna fram á bein tengsl milli fermetrafjölda húsnæðisins og fjárhæðar húsaleigu er ekki hægt að fara fram á lækkun leigunnar.

Húsaleigubætur: Flestir vita að þeir eiga rétt á húsaleigubótum. Þær eru tekjutengdar, þ.e. fjárhæð bótanna fer eftir tekjum umsækjanda. Einnig er tekið mið af fjölskyldustærð, greiddar eru hærri bætur til barnafólks. Ekki eru greiddar húsaleigubætur vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef aðgangur að eldhúsi og baðaðstöðu er sameiginlegur, þ.e. í íbúðinni þarf að vera a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt sér eldhúsi eða eldunaraðstöðu og baðaðstöðu.  Ef leiguíbúð er í skráðu atvinnuhúsnæði, t.d. verslunar eða iðnaðarhúsnæði, þá á leigjandi ekki rétt á húsaleigubótum. Til að fá húsaleigubætur þarf að láta þinglýsa húsaleigusamningnum hjá sýslumanni.

Uppsagnarfrestur: Ef um tímabundinn leigusamning er að ræða skal leigjandi flytja úr húsnæðinu þegar hann rennur út. Leigjandi íbúðarhúsnæðis hefur þó forgangsrétt til leigu þess að leigutíma loknum ef leigusali ætlar að leigja húsnæðið áfram. Forgangsrétturinn tekur bæði til tímabundinna og ótímabundinna samninga, en ýmsar undantekningar eru þó frá forgangsréttinum.

Margir leigusalar fram á að leigan sé borguð í reiðufé í stað þess að vera lögð inn á bankareikning. Það getur valdið leigjanda vandræðum, t.d. ef hann telur sig borga of háa leigu eða ef honum er sagt upp húsnæðinu. Það þarf þó að hafa í huga að ef enginn leigusamningur er fyrir hendi, þá gilda sömu reglur og um ótímabundna samninga. Er þá uppsagnarfresturinn sex mánuðir, en þetta gildir ekki ef húsnæðið er atvinnuhúsnæði. Uppsagnarfrestur á einstaklingsherbergjum er einn mánuður.

Úttektir:  Meginreglan er sú að leigjandi ber ábyrgð á allri rýrnun og spjöllum sem orðið hafa á húsnæðinu og flokkast ekki undir eðlilegt slit. Það getur verið erfitt að sýna fram á að húsnæðið hafi verið í sama ástandi við afhendingu og við lok leigutímans og er því öruggara að láta fara fram úttekt á leigðu húsnæði við afhendingu eða við skil í lok leigutíma. Skylt er að láta úttekt fara fram ef leigutaki eða leigusali krefjast þess og er það byggingafulltrúinn í viðkomandi sveitarfélagi sem gerir það. Sérstaklega er mikilvægt fyrir leigjendur að láta úttekt fara fram í þeim tilvikum að leigusalinn vill fá tryggingu. Í sumum tilvikum neita leigusalar að endurgreiða trygginguna í lok leigutímans á þeim forsendum að húsnæðið hafi orðið fyrir skemmdum.

Viðhald og rekstrarkostnaður: Meginreglan er sú að leigusali annist viðhald leiguhúsnæðis. Varðandi rekstrarkostnað, er það venjan að leigjandi greiði kostnað sem beinlínis tengist sérstakri notkun hans, t.d. rafmagn og hita, en leigusali greiði fastan kostnað og gjöld sem tengjast eignarhaldi á hinu leigða húsnæði.

Tryggingar: Ef samið er um fyrirframgreiðslu fyrir lengri tíma en þrjá mánuði þá hefur leigjandi kröfu um leigurétt í þrefaldan þann tíma sem hann greiddi fyrir.

Orkunotkun: Það er mikilvægt að leigjendur átti sig á því að það er í raun öruggara að öllu leyti að vera sjálfur skráður fyrir orkunotkun. Ef leigusali er skráður, hefur hann heimild til að óska eftir því að lokað verði fyrir orkuafhendingu og einnig hefur það gerst að rafmagn og hiti á að vera innifalið í leigu en síðan stendur leigusali ekki skil á reikningum og þá hefur verið lokað á leigjandann. Mjög áríðandi er einnig að tilkynna flutning til orkuveitu viðkomandi sveitarfélags, því ef hún fær ekki slíka tilkynningu er viðkomandi viðskiptavinur enn skráður sem notandi á staðnum og ber ábyrgð á notkun þar til hann tilkynnir flutning eða segir upp notkun.