Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Slit á óvígðri sambúð

Sá misskilningur er útbreiddur að sömu réttarreglur gildi um sambúðarfólk og um fólk í hjúskap/staðfestri samvist. Staðreyndin er hins vegar sú að hjúskaparlög eiga aðeins við um fólk í hjúskap/staðfestri samvist. Sem dæmi má nefna að í óvígðri sambúð gildir ekki helmingaskiptaregla hjúskaparlaga um skiptingu eigna og skulda, milli sambúðarfólks ríkir ekki gagnkvæm framfærsluskylda og ekki er um erfðarétt milli þeirra að ræða.

Óvígð sambúð skapar heldur ekki rétt til setu í óskiptu búi eftir andlát skammlífari maka.  Ekki er til nein heildarlöggjöf um óvígða sambúð, en í ýmsum lögum er þó að finna ákvæði er taka til óvígðrar sambúðar. Til dæmis geta karl og kona/samkynhneigðir í óvígðri sambúð óskað eftir því skriflega við skattyfirvöld, að vera skattlögð sem hjón ef þau/þeir/þær eiga sameiginlegt lögheimili, eiga barn saman, konan er þunguð eða ef sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár. Að framangreindum skilyrðum uppfylltum eiga karl og kona/samkynhneigðir í óvígðri sambúð sama bótarétt og hjón samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Í óvígðri sambúð verða ekki til hjúskapareignir eða séreignir eins og milli hjóna. Í dómum hefur þó oft verið viðurkenndur réttur sambúðaraðila til hlutdeildar í þeirri eignamyndun sem orðið hefur á sambúðartímanum, þ.e. hann getur t.d. öðlast eignarrétt í fasteign að hluta þó henni sé aðeins þinglýst á nafn hins aðilans. Hvor sambúðaraðila þarf að sýna fram á fjárframlag sitt til búsins. Þá skiptir lengd sambúðartímans máli og jafnvel barnafjöldi.

Náist ekki samkomulag um eignaskipti við slit óvígðrar sambúðar, getur annar aðila eða báðir, krafist opinberra skipta til fjárslita á milli þeirra á grundvelli skiptalaga. Skilyrði þessa eru þau að sambúðin hafi varað hið minnsta í tvö ár eða þau/þær/þau búið saman í skemmri tíma og annað hvort eignast barn eða að konan sé þunguð af völdum karlsins.

Ekki er lagaskylda til að leggja fram skriflegan fjárskiptasamning við slit óvígðrar sambúðar eins og þegar um skilnað er að ræða. Fólk þarf  ekki að mæta til sýslumanns til að slíta sambúð ef það á ekki saman börn undir 18 ára aldri. Eigi sambúðarfólk hins vegar saman ósjálfráða börn, þarf það að ná samkomulagi um forsjá barna og meðlagsgreiðslur með þeim við sambúðarslitin. Náist ekki samkomulag má bera málið undir dóm.