Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Sameignarfélög

Ábyrgð: Sameignarfélag er fyrirtæki þar sem eigendur eru tveir eða fleiri. Ábyrgð eigenda á skuldbindingum félagsins er bein, óskipt og ótakmörkuð. Bein ábyrgð þýðir að kröfuhafar geta gengið beint að persónulegum eigum eigenda og þurfa því ekki fyrst að reyna að fá greitt hjá félaginu sjálfu. Óskipt ábyrgð þýðir að hver eigandi fyrir sig ábyrgist allar skuldir félagsins -  og með ótakmörkuðum hætti þýðir að eigandinn gerir það með öllum sínum eigum.

Mikilvægt er að eigendur geri nákvæman og ítarlegan stofnsamning við upphaf rekstrar. Þar ætti til dæmis að koma fram hvert stofnframlag hvers eiganda er, hvernig skipta á tapi eða hagnaði af rekstrinum, hvernig ákvarðanir skuli teknar ef eigendur eru ekki sammála. Stofnsamningur er venjulega bara bindandi milli eigenda sameignarfélagsins en takmarkar ekki fulla ábyrgð hvers eiganda gagnvart öðrum.

Skráning: Sameignarfélag skal skrá í firmaskrá hjá sýslumanni þess umdæmis þar sem skrifstofa rekstursins er og fást eyðublöð til skráningar þar. Skrá þarf nöfn og heimili allra félagsmanna við skráningu og upplýsa hver geti skuldbundið félagið með undirskrift. Fyrirtækið þarf að fá kennitölu og sér ríkisskattstjóri um að úthluta henni gegn framvísun skráningarkvittunar frá sýslumanni. Þá þarf að greiða 2% stimpilgjald af stofnfé sem félaginu er lagt til.