Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Hlutafélög

Ábyrgð: Hlutafélag er sú tegund félagaforms þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Fjárhagsleg ábyrgð þeirra er takmörkuð við það hlutafé sem þeir leggja fram. Eigendur hlutafélaga eru nefndir hluthafar og er framlagi þeirra skipt í eignarhluti og réttindi þeirra og áhrif fara eftir hlutaeign. Hlutafélög geta verið tvenns konar; annars vegar hlutafélög (hf.) og hins vegar einkahlutafélög (ehf.). Hf.-formið hentar fyrst og fremst fyrir stærri og viðameiri rekstur sem markmiðið er að skrá í kauphöll.

Fjöldi hluta og lágmarkshlutafé: Hlutafé í hf. skal skipt í tvo eða fleiri hluti og skal vera minnst fjórar milljónir króna. Einn eða fleiri hluthafar geta átt hf. en lágmarkshlutafé er fimm hundruð þúsund krónur.

Stofnun og greiðsla hlutafjár: Við stofnun hlutafélags skuldbinda væntanlegir hluthafar sig til þess að greiða það hlutafé sem þeir skrá sig fyrir, innan tilskilins tíma. Ef greiða á fyrir hluti með öðru en peningum þarf að tiltaka það sérstaklega í stofnsamningi og sérfróðir aðilar skulu meta verðmæti greiðslunnar. Þannig mætti til dæmis greiða hlutafé með tölvu- og tækjabúnaði, bókasafni, skrifstofuhúsgögnum og þ.h. Í hf. eru gefin út sérstök hlutabréf sem uppfylla venjulegast skilyrði viðskiptabréfa. Hlutabréf eru hins vegar ekki gefin út í einkahlutafélögum, heldur er látið nægja vottorð úr hlutaskrá félagsins, um eignaraðild og jafnvel hlutaskírteini.

Skráning félags: Hlutafélag skal tilkynna til skráningar hjá Hlutafélagaskrá (fyrirtækjaskrá) hjá Ríkisskattstjóra, Laugavegi 166, Rvk. innan tiltekins tíma en óskráð félag getur hvorki fengið réttindi né borið skyldur. Hf. skal tilkynna til skráningar innan sex mánaða frá dagsetningu stofnsamnings og skal þá minnst helmingur hlutafjár vera greiddur. Ehf. skal skrá innan tveggja mánaða frá dagsetningu stofnsamnings og skal þá allt hlutafé vera greitt. Einnig þarf að tilkynna til Hlutafélagaskrár ýmsar ákvarðanir og breytingar á áður tilkynntum upplýsingum (s.s. stjórn, tilgangi, hækkun eða lækkun hlutafjár). Þá þarf að senda ársreikninga og ársskýrslu ásamt skýringum. Tilkynningar skulu fara fram á sérstökum eyðublöðum og er gjald innheimt fyrir skráningar.

Stofngögn: Við stofnun og skráningu hlutafélaga þarf að skila stofnskrá/stofnsamningi, samþykktum og stofngerð/stofnfundargerð með skráningareyðublaði til ríkisskattstjóra. Þar sem það á við þarf skýrsla, um mat á eignum líka að fylgja.  Í ehf. eins aðila er talað um stofnskrá en í félögum fleiri aðila stofnsamning.

Hluthafar: Aðalreglan í félögum er að allir hlutir í félaginu hafi jafnan rétt og er þá yfirleitt miðað við fjárhæð hluta. Það má þó breyta þessu með ákvæðum í samþykktum félags og skipta hlutum í flokka, t.d. þannig að hlutir eigi mismunandi rétt til arðs eða beri mismunandi atkvæðisrétt.

Stjórnun félaga: Í félögum eru almennt þrjár stjórnareiningar; hluthafafundur, stjórn og framkvæmdastjóri. Hluthafafundur, sem allir hluthafar hafa rétt til að mæta á, fer  með æðsta vald í félögum og hefur einn vald til þess að taka ákveðnar lykilákvarðanir, svo sem kjósa stjórn, staðfesta ársreikninga og ákveða hvað eigi að gera við hagnað eða tap af rekstri. Stjórn félags stýrir félaginu á milli hluthafafunda, mótar stefnu til lengri tíma og hefur eftirlit með störfum framkvæmdastjóra. Í hf. skulu stjórnarmenn vera minnst þrír. Í ehf. geta stjórnarmenn verið einn eða tveir ef hluthafar eru fjórir eða færri. Framkvæmdastjóri félags stjórnar daglegum rekstri þess. Í hf. skulu alltaf vera einn til þrír framkvæmdastjórar en í ehf. þarf ekki að ráða framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórar mega líka sitja í stjórn félags en mega þó ekki vera í meirihluta nema í ehf., í tilvikum þar sem einn eða tveir menn sitja í stjórn.