Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Starfsleyfi

Líklegt er að rekstur sem stofna á til þurfi á sérstökum leyfum eða réttindum að halda. Starfsleyfi geta kallast ýmsum nöfnum, t.d. leyfi, eftirlit, sveins- eða meistarabréf, skráning, löggilding, skipun, vottun o.fl. Þessi leyfi eru nauðsynleg viðurkenning yfirvalda svo að reksturinn geti hafið starfsemi sína.

Verslunarleyfi
Þarf ekki lengur en þó má ekki hefja verslun nema atvinnurekstur sé skráður í firmaskrá, hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá o.s.frv. eftir því sem við á.

Leyfi frá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd
Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 gera ráð fyrir að Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gefi út starfsleyfi fyrir og hafi eftirlit með mengandi rekstri og rekstri sem snertir hollustuhætti.

Heilbrigðiseftirlit
Þær stofnanir sem taldar eru upp í fylgiskjali 1 við reglugerð, um heilbrigðiseftirlit nr. 941/2002 (sjá www.reglugerd.is) skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Venjulega verður að sækja um starfsleyfi heilbrigðisnefndar í viðkomandi sveitarfélagi eða, í einstaka tilfellum, leyfi Umhverfisstofnunar áður en rekstur hefst. Flestar tegundir fyrirtækja þurfa að sækja um leyfi af þessu tagi en helstu undantekningar eru ýmiss konar þjónustustarfsemi, s.s. skrifstofu- og bankastarfsemi.

Mengunarvarnir:
Umhverfisstofnun sér um mengunarvarnareftirlit með atvinnurekstri sem talinn er upp í fylgiskjali 1 og I. viðauka reglugerðar um mengunarvarnir nr. 785/1999. Viðkomandi heilbrigðisnefnd sér um mengunarvarnareftirlit og má innheimta gjald af eftirlitsskyldri starfsemi. Gjaldskrár eru birtar í B-deild stjórnartíðinda sjá  www.stjornartidindi.is.

Matvælaeftirlit:
Þeir sem framleiða eða dreifa matvælum skulu hafa starfsleyfi. Heilbrigðisnefndir undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, sjá um útgáfu og eftirlit með slíkum leyfum og þarf að sækja um þau áður en starfsemi hefst og þegar eigendaskipti verða.

Leyfi frá Vinnueftirliti ríkisins
Samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verða allir sem ætla að hefja rekstur fyrirtækis eða breyta rekstri eldra fyrirtækis, að fá  umsögn Vinnueftirlits ríkisins um hvort hin fyrirhugaða starfsemi sé í samræmi við lögin og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Nauðsynleg  eyðublöð fást hjá Vinnueftirlitinu, Bíldshöfða 16, Reykjavík og á heimasíðu eftirlitsins: www.vinnueftirlit.is .