Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Breytingar á lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga

Þann 1. ágúst síðastliðinn tóku gildi breytingar á lögum um útlendinga og um atvinnuréttindi útlendinga. Hefur tegundum atvinnu- og dvalarleyfa og skilyrðum fyrir þeim verið breytt talsvert. Til dæmis er atvinnuleyfi nú veitt útlendingi til að starfa á tilteknum vinnustað, í stað atvinnurekanda áður, en meginreglan er þó að atvinnurekandinn sæki um atvinnuleyfið. Eins og áður þurfa allir umsækjendur, frá ríkjum utan EES, að uppfylla grunnskilyrði dvalarleyfis, t.d. framfærslu, húsnæði, sakavottorð, sjúkratryggingu og gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Einnig þurfa almenn skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis að vera uppfyllt til að útlendingur fái atvinnuleyfi, t.d. starfsfólk fáist hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja og að atvinnurekandi hafi sjúkratryggt útlending. Samkvæmt lögunum er nú skilyrði fyrir framlengingu atvinnuleyfa atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.

Hér á eftir verður svarað nokkrum spurningum varðandi ýmis ákvæði laganna.


Ég er frá ríki utan EES en konan mín er frá Hollandi. Þarf ég atvinnuleyfi?
Aðstandandi (t.d. maki) ríkisborgara EES-ríkis eða EFTA-ríkis sem dvelur löglega hér á landi á rétt til að ráða sig til starfa eða að starfa sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á íslenskum vinnumarkaði óháð þjóðerni. Þú getur því starfað (unnið) hér á landi án atvinnuleyfis.


Ég er með c-leyfi, get ég fengið því framlengt? Fæ ég þá leyfi sem skapar grundvöll fyrir búsetuleyfi?
Dvalarleyfi og búsetuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna halda gildi sínu. Þeir sem fengið hafa útgefið dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku án takmarkana fyrir gildistöku laganna geta óskað endurnýjunar á leyfum sínum þrátt fyrir að skilyrðið um skort á vinnuafli sé ekki uppfyllt enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum fyrir endurnýjun slíks leyfis. Handhafi slíks leyfis getur sótt um búsetuleyfi og aðstandendur hans geta sótt um dvalarleyfi. Þeir sem hafa dvalarleyfi með takmörkunum, t.d. c-leyfi, geta sótt um framlengingu á leyfinu, en þá þarf skilyrðið um skort á vinnuafli að vera uppfyllt og veitt yrði tímabundið dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli, sem getur ekki verið grundvöllur fyrir ótímabundnu atvinnuleyfi og búsetuleyfi.


Maðurinn minn beitir mig ofbeldi. Ég er ekki með búsetuleyfi. Þarf ég að fara úr landi ef ég skil við hann?
Í lögunum er að finna mikilvægt nýmæli þess efnis að ef hjúskap, staðfestri samvist eða sambúð er slitið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur orðið fyrir misnotkun eða ofbeldi í sambandinu má, þegar sérstaklega stendur á og ríkar sanngirnisástæður mæla með, endurnýja aðstandendaleyfi þrátt fyrir breyttar forsendur dvalar hér á landi, ef grunnskilyrði fyrir dvalarleyfi eru uppfyllt. Er þá m.a. litið til lengdar hjúskapar, staðfestrar samvistar eða sambúðar og tengsla útlendings við landið.

Ég lenti í fjárhagsörðugleikum vegna veikinda og þurfti aðstoð frá Félagsmálayfirvöldum. Fæ ég ekki leyfið mitt endurnýjað?
Þegar dvalarleyfi eru endurnýjuð má, ef sérstaklega stendur á, víkja frá skilyrði um trygga framfærslu hafi framfærsla verið ótrygg í stuttan tíma vegna atvinnuleysis, slyss eða veikinda og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Hafa skilyrði fyrir búsetuleyfi breyst?
Já. Nú er meginreglan sú að það má veita útlendingi búsetuleyfi hafi hann dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis. Áður gátu t.d. þeir sem höfðu fengið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar sótt um búsetuleyfi eftir 3 ár.

Skilyrði fyrir veitingu búsetuleyfis eru m.a. að útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, að ekki liggi fyrir ástæður sem geta valdið því að honum verði vísað úr landi, hann sýni fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti séð fyrir sér hérlendis með löglegum hætti. Greiðslur almannatrygginga, atvinnuleysisbætur eða greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu, en það má víkja frá þessu skilyrði ef framfærsla hefur verið ótrygg í stuttan tíma og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Það er einnig skilyrði að útlendingur hafi haft dvalarleyfi á sama grundvelli (t.d. dvalar- og atvinnuleyfi) síðustu fjögur ár áður en umsókn um búsetuleyfi er lögð fram og skilyrði þess leyfis séu enn uppfyllt.

Umsækjandi um búsetuleyfi má ekki eiga ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi (afbrot).

Það má veita barni sem fæðist eftir að forsjárforeldri kemur til landsins búsetuleyfi ef foreldrið hefur búsetuleyfi hér á landi.

Þegar lögheimili útlendings hefur verið skráð erlendis í 18 mánuði fellur búsetuleyfið sjálfkrafa niður.

Ég þekki einstakling sem fékk leyfi á grundvelli falsaðra gagna. Hver er réttarstaða hans ef það kemst upp?
Ef útlendingur frá ríki utan EES hefur fengið leyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða þess að leynt var atvikum sem verulega þýðingu gátu haft við útgáfu leyfis, verður réttarstaða hans eftir að leyfið hefur verið afturkallað, sú sama og ef hann hefði aldrei fengið útgefið leyfi.

Réttur útlendings til dvalar á Íslandi fellur niður ef hann hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar, ef um málamyndagerninga er að ræða (t.d. hjúskap) eða dvöl í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist heimildum laganna. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða. Réttur til dvalar hér á landi fellur ekki niður vegna tímabundinna veikinda, slyss eða þess að EES- eða EFTA-útlendingur er atvinnulaus gegn vilja sínum eftir að hafa starfað hér á landi í meira en eitt ár.

Ég er EES borgari, þarf ég að sækja um búsetuleyfi til að fá rétt til ótímabundinnar dvalar?
EES- eða EFTA-útlendingur, sem dvalið hefur löglega hér á landi samfellt í fimm ár á rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Sama gildir um aðstandendur hans sem hafa dvalið löglega með honum hér á landi í fimm ár. Dvöl erlendis í skemmri tíma en samtals sex mánuði á ári, dvöl erlendis vegna herþjónustu eða dvöl í eitt skipti að hámarki í eitt ár vegna meðgöngu, fæðingar, alvarlegs sjúkdóms, náms eða starfsþjálfunar telst ekki rof á samfelldri dvöl. Réttur til ótímabundinnar dvalar fellur niður ef samfelld dvöl erlendis varir lengur en tvö ár.

Forsíða Upplýsingaefni Greinar Breytingar á lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga