Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Kvennaráðgjöfin

Kvennaráðgjöfin tók til starfa í febrúar 1984 og hefur starfað óslitið síðan. Var hún stofnuð af konum til að bæta aðgang kvenna að sérfræðiaðstoð. Spratt Kvennaráðgjöfin í raun upp úr þeim hræringum sem urðu meðal kvenna seint á sjöunda áratugnum og í byrjun hins áttunda og leiddu til stofnunar Kvennalistans, og síðar Kvennaráðgjafar, Kvennaathvarfs og Stígamóta.
Í Kvennaráðgjöfinni starfa í sjálfboðaliðavinnu um 25 félagsráðgjafar og lögfræðingar, þ. á m. nemar á lokaárum í þessum greinum. Opnunartímar eru þriðjudaga frá kl. 20-22 og fimmtudaga frá kl. 14-16. Megintilgangur starfseminnar er að veita konum stuðning og ráðgjöf og er Kvennaráðgjöfin opin öllum konum (og körlum) og geta þær hvort sem er komið eða hringt. Þjónustan er endurgjaldlaus og þurfa þeir sem til okkar sækja ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar.

Aðsóknin að Kvennaráðgjöfinni hefur frá upphafi verið mikil og er það ekki síst vegna þess hve auðvelt er fyrir konur að leita til okkar, þarf ekki að panta tíma og þess háttar. Til okkar leituðu yfir 200 konur árlega, bæði af höfuðborgarsvæðinu og af landsbyggðinni. Síðustu ár hefur aðsóknin minnkað aðeins en ástæður þess rekjum við þó ekki til minnkandi þarfar heldur þess að síðustu ár höfum við ekki haft neina fjármuni aflögu til að auglýsa þjónustuna og því er hætta á að margar konur sem þurfa á ráðgjöf að halda viti hreinlega ekki af tilvist Kvennaráðgjafarinnar.. Oftast leita konur til okkar vegna hjónaskilnaða, slita á óvígðri sambúð, sambúðarerfiðleika, meðlagsmála, umgengnisréttarmála, forsjárdeilna, barnaverndarmála, fjárhagserfiðleika, erfðamála, vanlíðunar og ofbeldis.

Undanfarið hefur það aukist að karlmenn leiti einnig eftir ráðgjöf og þrátt fyrir að Kvennaráðgjöfin sé ætluð konum þá vísum við auðvitað engum frá sem leitar til okkar.

Kvennaráðgjöfin er fyrst og fremst hugsuð sem aðstoð við konur sem standa höllum fæti og vantar ráðgjöf sem þær geta ekki greitt fyrir. Þannig tekur Kvennaráðgjöfin við mörgun tilvísunum frá Kvennaathvarfi og Stígamótum og vinnur mikið með þeim samtökum. Þá er gjarnan vísað til okkar konum frá prestum og félagsþjónustum sveitarfélaga þar sem það er þekkt að ráðgjöfin hjá okkur er endurgjaldslaus.

Vor og haust stóð Kvennaráðgjöfin fyrir hópstarfi kvenna sem stóðu í skilnaði eða sambúðarslitum, þar sem unnið var að sjálfstyrkingu til að konurnar gætu betur tekist á við lífið einar eftir skilnaðinn/sambúðarslitin. Kvennaráðgjöfin gaf einnig út bæklinginn Skilnaður: Nokkrar hagnýtar upplýsingar um skilnað. Því miður hefur fjárhagstaða Kvennaráðgjafarinnar hin síðustu ár valdið því að hvorki hefur verið svigrúm til endurnýjunar bæklingsins (sem þarf einnig að endurskoða í ljósi lagabreytinga, t.d. nýrra barnalaga og barnaverndarlaga) né að halda uppi framangreindum stuðninghópum. Enn fremur hefur lengi staðið til að setja upp heimasíðu fyrir ráðgjöfina, með greiðum aðgangi að nauðsynlegum og gagnlegum upplýsingum auk möguleika á því að senda fyrirspurnir og fá þeim svarað af netinu.

Kvennaráðgjöfin tekur almennt ekki þátt í opinberri umræðu um réttindamál kvenna, en hefur mætt á fundi hjá frjálsum félagasamtökum, nefndum Alþingis, í ráðuneytum o.fl., til að miðla þeirri þekkingu og reynslu sem safnast hefur þar saman í áranna rás. Þá hefur Kvennaráðgjöfin tekið þátt í samstarfsverkefnum kvennahreyfingarinnar s.s. um átak gegn ofbeldi, Kvennaárið (þ.á m. Kvennarfrídaginn 24. október 2005) o.fl. Þá hefur Kvennaráðgjöfin einnig stutt opinberlega frumvörp til laga um bann við kaupum á kynlífsþjónustu, um fórnarlamba- og vitnavernd fyrir fórnarlömb mansals, um nálgunarbann og brottnám ofbeldismanna af heimilum (austurrísku leiðina) o.fl.

Að lokum skal á það bent að alltaf er þörf nýrra sjálfboðaliða hjá Kvennaráðgjöfinni og leikur ekki vafi á því að reynslan þar kemur bæði félagsráðgjafar- og laganemum til góða.
Forsíða Kvennaráðgjöfin