Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Skattar á Íslandi

Orðalisti:

Framteljandi= sá sem skila á skattframtali.

Skattkort= fæst hjá skattstofum (Reykjavík, Tryggvagata 19) og ríkisskattstjóra (Laugavegur 166). Þarf að vera með kennnitölu og persónuskilríki með mynd. Þarf að láta vinnuveitandann fá skattkort til að geta fengið persónuafslátt. Ef þú vinnur á fleiri en einum stað má skipta skattkortinu upp, t.d. 60%-40% eða ef þú vinnur ekki má maki þinn nota skattkortið þitt. Allir sem eru með fasta búsetu á Íslandi fá útgefið skattkort við 16 ára aldur, hvort sem þeir eru með atvinnuleyfi eða ekki, en frá þeim tíma teljast þeir fullgildir skattgreiðendur.

Persónuafsláttur= föst fjárhæð sem dregin er frá staðgreiðslu í hverjum mánuði, var 29.029 árið 2006, er 32.150 árið 2007.

Skattframtal= eyðublöð sem send eru launþegum á hverju ári. Allir fá skattframtal og líka veflykil til að geta talið fram á netinu. Sumir fá bara veflykil, þá hafa þeir óskað eftir því.

Tekjuskattur= skattur til ríkisins af öllum tekjum launamanns. Launagreiðandi á að reikna út skattana og borga þá fyrir starfsmenn sína.

Útsvar= skattur til sveitarfélaga af öllum tekjum launamanns. Launagreiðandi á að reikna út skattana og borga þá fyrir starfsmenn sína. 

Staðgreiðsla/Skattur= greiðslur til ríkisins af öllum tekjum, venjulega dregið af starfsmanni í hverjum mánuði. Af heildarlaunum mánaðarlega er reiknaður skattur (36,72% árið 2006 og 35,72% árið 2007). Síðan er persónuafsláttur dreginn frá (ef starfsmaður er með skattkort). Mismunurinn er borgaður til ríkisins.

Starfsmaður/launþegi= einstaklingur sem vinnur hjá atvinnurekanda, fyrirtæki/stofnun.

Launagreiðandi/vinnuveitandi= atvinnurekandi, fyrirtæki eða stofnun sem er með starfsmanninn í vinnu.

Tekjur= laun sem starfsmaður fær greitt fyrir vinnu sína.

Skattstjóri= sá sem sér um að fara yfir skattframtöl og ákvarða fjárhæðir skatts til greiðslu eða endurgreiðslur.

Skattaafsláttur= hægt er að sækja (sérstakt eyðublað) um afslátt vegna t.d. tímabundinna veikinda eða áfalla, fötlunar barna, verulegs eignatjóns sem ekki hefur fengist bætt, eða þegar framteljandi hefur fyrir foreldrum að sjá. Foreldrar sem sjá fyrir 16-21 ára börnum sínum á meðan þau eru í námi, eiga líka rétt á skattaafslætti. Foreldri þarf að færa upplýsingarnar um þann skóla sem ungmennið gengur í og tekjur þess í sérstakan reit á skattframtali sínu. 


 

Þessa dagana fá allir sem unnið hafa á Íslandi á síðasta ári senda heim eða afhenta launamiða frá launagreiðendum (vinnuveitendum) sínum.

Þar koma fram heildarlaun, á árinu 2006, frá hverjum launagreiðanda til starfsmannsins. Bráðum verða skattframtal og veflykill send til allra sem eru 16 ára og eldri og er annað hvort hægt að fylla framtölin út eða skila þeim á netinu (www.rsk.is, vefskil) með því að nota veflykilinn. Það á alltaf að skila inn skattframtali á hverju ári, venjulega í mars, vegna tekna ársins á undan. T.d. á að skila framtali 2007 vegna tekna á árinu 2006. Dagsetning lokafrests til að skila framtölum er breytileg milli ára svo fáðu upplýsingar hjá Alþjóðahúsi, eða skattstjóranum í þínu umdæmi, um hvenær lokafrestur rennur út. Á heimasíðu ríkisskattstjóra: www.rsk.is, undir international eða framtalseyðublöð á 7 tungumálum og bæklingar á 8 tungumálum (að vinna tímabundið á Íslandi). Á bakhlið framtalseyðublaðanna eru leiðbeiningar um hvernig á að fylla framtalið út.

 

Á framtali skal líka telja fram bankainnstæður, eignir (t.d. fasteignir) og þær skuldir sem á eignunum hvíla.

 

Ef framtali er ekki skilað eru tekjur áætlaðar, og dregið er af launum starfsmannsins til samræmis við áætlunina. Ef þig vantar aðstoð við að fylla út framtalið getur þú óskað aðstoðar á skattstofunni, hjá stéttarfélaginu þínu eða í Alþjóðahúsi (frágangur skattframtals kostar 2000 kr). Þá er einnig hægt að leita til endurskoðenda en hafa ber í huga að það þarf að borga fyrir þjónustu þeirra.

Skylt er að skila skattframtali til skattstjóra sem fyrst áður en farið er úr landi. Endanlegt uppgjör skatta fer síðan fram árið eftir að teknanna er aflað og er lokið 1. ágúst það ár.


Mikilvægt er að geyma alla launaseðla því ef launagreiðandi skilar ekki staðgreiðslu af launum starfsmanns til ríkisins, þá þarf starfsmaðurinn að sýna fram á að staðgreiðslan hafi verið dregin af launum hans, annars þarf hann að borga skattinn aftur.   

 

Ríkisskattstjóri
Laugavegur 166
105 Reykjavík
563 1100
www.rsk.is

Skattstjórinn í Reykjavík
Tryggvagata 19
101 Reykjavík
560 3600
www.skr.is